Stefán Halldórsson, félagsfræðingur, rekstrarhagfræðingur og ættfræðigrúskari, kom í þáttinn í dag einmitt til að tala um ættfræðigrúsk. Hann hefur kennt námskeiðið Ættfræðigrúsk - fjölskyldusaga þín á netinu hjá Endurmenntun Háskóla Íslands þar sem hann hjálpar fólki að grúska í sinni eigin ættfræði. Sem sagt kennir hann fólki að að nýta sér gagnagrunna og skjalasöfn á netinu til að afla upplýsinga um sögu fjölskyldu sinnar allt að 200 ár aftur í tímann. Við fengum Stefán til að útskýra þetta fyrir okkur í þættinum.
Daníel Bergmann ljósmyndari hefur myndað íslenska fálkann í rúm 20 ár í íslenskri náttúru. Við töluðum í dag við Daníel um nýútkomna ljósmyndabók hans, Fálkinn, sem kom út í síðustu viku en bókin er afrakstur rúmlega tveggja áratuga vettvangsvinnu við alls kyns óblíðar aðstæður að vetri, en einnig góðar að sumri og það tók tíma að ávinna sér traust fálkana. Daníel sagði okkur frá í þættinum.
Elín Björk Jónasdóttir kom svo í þáttinn og ræddi við okkur um veðrið og áhugaverð veðurfyrirbrigði í dag eins og undanfarna þriðjudaga. Í dag fræddi hún okkur meðal annars um rosabauga og hjásólir.
Tónlist í þættinum í dag:
Bjartsýni / Ríó tríó (Gunnar Þórðarson og Jónas Friðrik Guðnason)
Mississippi / The Cactus Blossoms (Jack Torrey)
Girl From Before / Blood Harmony (Örn Eldjárn Kristjánsson)
Kentucky / Billie Joe Armstrong og Norah Jones (Karl Davis)
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR