Nú um helgina fer fram bresk-ameríska hátíðin sem á íslenskri tungu nefnist hrekkjavaka. Katrín Guðmundsdóttir sjónvarpsgagnrýnandi er algjörlega forfallin aðdáandi þess myrkurs og annarleika sem er hampað á hrekkjavökunni og horfir helst ekki á neitt annað en hrollvekjur í októbermánuði. Í þætti dagsins rýnir Katrín í Netflix-þætti, leikstjórans Mikes Flanegans, Midnight Mass.
Myndasagnaformið hentar vel í að miðla drungalegri stemningu hrekkjavökunnar og mishryllilegum furðuverum sem henni tengjast. Ómyndarsögur er nýútkomið blað með safni af myndum og sögubrotum frá íslenskum myndhöfundum sem sækja í ýmiskonar hrylling. Blaðið kemur út á vegum tímaritsins MyndaRsögur sem var komið á fót fyrr á þessu ári. Aron Daði Þórisson útgefandi blaðsins heimsækir lestina og ræðir hryllilegar teikningar, myndasögusenuna og ástæður þess að hann ákvað að koma á fót myndasögutímariti.
Færri blaðamenn, fleiri almannatenglar og upplýsingafulltrúar. Þannig hefur þróunin verið en hún vekur upp ýmis álitaefni varðandi grundvallar stöðu og hlutverk fjölmiðla annars vegar og svo opinberra starfsmanna. Skiptir máli hver færir okkur fréttir? Skiptir máli hver fær, að færa okkur fréttir? Við ræðum við Ingibjörgu Sigríðar Elíasdóttur um málfrelsi opinberra starfsmanna og um stöðu dagskrárvaldsins í íslenskri fjölmiðlun.