Í febrúar greindum við frá því að bíræfinn bókaþjófur herjaði á íslenska rithöfunda, og raunar rithöfunda um allan heim, og rændi frá þeim óútgefnum handritum. Nú hefur þrjóturinn látið aftur til skarar skríða hér á landi. Fríða Ísberg segir okkur sögu sína auk þess sem við köfum dýpra í blekkingarheim bókaþjófsins með hjálp blaðamanna New Yorker tímaritsins.
Magnús Thorlacius notaði sumarið í að rannsaka sjálfsmynd Kópavogs. Hann skoðaði atburði í sögu bæjarfélagsins og kennileiti þess út frá óvæntum sjónarhornum og hann segir frá niðurstöðum sínum í pistlaröð hér í lestinni í haust. Í síðustu viku fjallaði hann um hinn svokallaða Skítalæk og í dag fjallar hann um vinabæi Kópavogs.
Og hljómsveitin Gróa heimsækir okkur undir lok þáttar, en tríóið gaf nýlega út sína þriðju plötu, What I like to do. Karólína, Hrafnhildur og Fríða setjast um borð í Lestina og ræða plötuna, tónlistarmyndbönd, post-dreifingu, Berlín og lagasmíðar á tímum samkomutakmarkana.