Það verður ekki hægt að sjá neinar sýningar í New Diorama leikhúsinu í London í haust. Engir miðar til sölu. Ástæðan, samkvæmt listrænum stjórnanda leikhússins, David Byrne, er meðal annars sú að þau er einfaldlega komin með leið á því að sýna sömu verkin með sömu hópunum. Leikhúsið kallar þetta sína róttækustu uppsetningu hingað til, að hafa leikhúsið tómt. Þetta er fjárfesting í þróun á nýjum sviðslistaverkum, sviðslistaverkum sem eiga að vera áhættusæknari og djarfari en það sem hefur áður sést. En hvað þýða þessar aðgerðir fyrir sviðslistafólk í London?
Assa Borg Þórðardóttir flytur pistil um óþægilega, sársaukafulla list frá tveimur ólíkum listamönnum: japanska hávaðalistamanninum Masonna og bandaríska grínistanum Eric Andre.
Þann 30. október fer í Brasilíu fram seinni umferð forsetakosninga, þar sem eigast við hinn vinstrisinnaði Lula og íhaldsmaðurinn, þjóðernissinninn og popúlistinn Jair Bolsanaro. Sá síðarnefndi klæðist reglulega hinni kanarí-gulu keppnistreyju brasilíska fótboltalandsliðsins við ýmis tilefni og er búningurinn orðinn að einkennisklæðnaði stuðningsmanna hans í kröfugöngum og kosningafundum. Andstæðingar Bolsanaros gera nú allt til að hrifsa þetta sameiningartákn úr höndum popúlistans.
En brasilíski búningurinn er ekki sá eini sem er orðinn að pólitísku bitbeini fyrir heimsmeistaramótið í Katar í lok ársins. Nú á dögunum kynnti danska landsliðið sinn búning fyrir mótið og er sá búningur hannaður til að mótmæla stöðu mannréttindamála í Katar. Við ræðum pólitík og fótboltatreyjur við Stefán Pálsson sagnfræðing.