Það væri óheiðarlegt að kalla fyrirhugaðar brottvísunarbúðir eitthvað annað en þvingunarráðstöfun, segir dómsmálaráðherra. Hún telur sig ekki þurfa að hlusta á yfirhalningu frá fínum mönnum í Háskóla Íslands um að hlutirnir séu ekki eins og þeir séu varðandi námsmannaleyfi erlendra nemenda - hún hafi gögn og yfirlýsingar sem sýni að bregðast þurfi við.
Bændur, veiðimenn og sumarhúsaeigendur í Borgarfirði eru ósáttir við hvernig Andakílsárvirkjun stjórnar vatnshæð í Skorradalsvatni og rennsli Andakílsár. Þeir kvarta undan blautum túnum, landrofi, öryggi veiðimanna, áhrifum á mannvirki og hvarfi gönguleiða meðfram vatninu.
Í dag var tilkynnt að loftlagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna COP 32, sem haldin verður eftir tvö ár, verði í Eþiópíu - en hvar COP 31 verður haldin á næsta ári liggur ekki fyrir enn. Tvö ríki, Ástralía og Tyrkland, bítast nefnilega um hnossið - og ef hvorugt þeirra gefur eftir mun það þriðja neyðast til að gera það. Þetta ríki er Þýskaland - en Þjóðverjar vilja ekki halda ráðstefnuna og gera því allt hvað þeir geta til að leysa þetta óvenjulega vandamál, sem rekja má til regluverksins um val á gestgjöfum.