Í síðustu viku fjölluðum við um mál Elham Fakouri, íranskrar tónlistarkonu sem sem sótti um tímabundið atvinnuleyfi hér á landi en var hafnað, á grundvelli þess að starfið sem henni bauðst - við stjórnun viðburðaraðar um miðausturlenska menningu - sé ekki nógu sérhæft. Við fáum til okkar Fríðu Björk Ingvarsdóttur, rektor listaháskóla íslands, og ræðum stöðu alþjóðlegra listamanna á Íslandi, starfsumhverfi listanna, hugmyndina um sérhæfingu og hver eigi að dæma um hana.
Stjörnulögfræðingurinn Stella Blómkvist er einhver dularfyllsta persóna íslenskrar bókmenntasögu - eða öllu heldur, hefur ráðgátan um hver það sé sem skrifi bækurnar um ævintýri Stellu heillað íslenska lesendur í meira en tvo áratugi. Og vinsældir Stellu hafa ekki minnkað með sjónvarpsþáttum um hana. Önnur þáttaröðin er nú komin á Sjónvarp Símans og Katrín Guðmundsdóttir hefur verið að horfa.
Við fræðumst um sýndarveruleikakvikmyndir sem sýndar verða á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF um helgina sem hluti af nýjum flokki á hátíðinni, Nýjasta tækni og kvikmyndir. Nanna Gunnars sest um borð í Lestina og spjallar um bíó í sýndarveruleika.