Sofum saman

Sofum saman: Hrotið á fjöllum


Listen Later

Einar Sveinn Westlund hefur verið mikið uppi á fjöllum og unnið sem gönguleiðsögumaður. Hann hefur hrotið í mörg ár.

„Ég er vanalega að vinna 14–16 tíma á dag og svo sef ég í tjaldi og vakna svo eldsnemma til að gera morgunmat fyrir alla. Og það hefur ekki endilega alltaf verið auðveldast í heimi. Síðan hefur ekki hjálpað mér að síðan ég man eftir mér, bara á morgnana, þá er það sem ég kalla zombí–mode. Klukkutími venjulega þar sem ég vil ekki að neinn tali við mig. Ég get ekki svarað neinu. Ég er eiginlega bara gagnslaus á morgnana.

Ég hrýt rosalega hátt og rosalega mikið. Og þetta hefur verið svolítið vandamál við að vera fjallaleiðsögumaður – að vera uppi á fjöllum og gista í tjöldum. Ég er aldrei vinsæll, sérstaklega þegar við erum að gista á sama stað í tvær nætur í röð. Það er alltaf horft á mann á morgnana og það finnst mér mjög óþægilegt.

En síðan einmitt í einni gönguferð, með mínu eigin fyrirtæki sem ég kalla Feast in the Wild, var ég með rosalega skemmtilegan tannlækni frá Utah. Þetta var alveg mjög skemmtilegur karakter. En hann sýndi mér einn svona svefngóm. Hann lofaði öllu góðu með þessu og sagðist sjálfur hafa hrotið alveg ótrúlega lengi. Hann sagði að gómurinn hefði bjargað honum.“

Einar tekur undir þessa upplifun eftir að hann fékk sér svefngóm.
„Þetta er eiginlega eins og að hafa lifað í myrkri og svo loksins komið í ljósið. Það er ótrúlegt hvað það breytir miklu að fá góðan svefn.“

Í læri hjá Noma

„Svo langaði mig að læra meira um ætiplöntur í náttúrunni. Ég var búinn að vera mikið á ferðinni, flytja á milli landa, til Ítalíu, Kanada og Finnlands. Þá komst ég að því að það var í boði styrkur sem gæti hentað mér. Hann heitir Erasmus for Young Entrepreneurs. Það er fyrir fólk sem er annaðhvort nýbyrjað í rekstri eða er með viðskiptahugmynd. Þá getur maður farið hvert sem er innan Evrópu og lært af einhverjum sem hefur a.m.k. fimm ára reynslu í viðkomandi geira. Ég fékk þá símanúmer, hringdi bara beint og sagði: Thomas benti mér á að hafa samband við þig. Ég er Íslendingur með styrk frá Evrópusambandinu. Ég vinn sem leiðsögumaður í náttúrunni og gæti unnið frítt fyrir ykkur í sex mánuði gegn því að fá að læra. Þannig endaði ég í Danmörku á veitingastaðnum Noma, sem flestir ættu að þekkja, þar sem ég var að tína ætiplöntur í sex mánuði.“ 

Noma státar af þremur Michelin–stjörnum ásamt því að hafa fimm sinnum verið valið besta veitingahús í heimi frá árinu 2010.

Veisla í náttúrunni

„Þetta er einmitt það sem ég hef verið að vinna með síðan. Planið fyrir næsta vor er að fara að setja þetta allt saman undir nafninu „Feast in the Wild“. Á Instagram heiti ég „feast in the wild“, og svo er líka að koma upp heimasíðu, feastinthewild.com. Þar verður ekki bara sagan mín heldur líka upplýsingar um hvaða ætar plöntur eru til hér á Íslandi, hvernig þær eru notaðar í lækningaskyni og fleira.“

Hvar týndist þekkingin?

„Mín kenning er sú að fyrir 500 eða 1000 árum hafi fólk vitað um þessar plöntur. Það er alveg ástæða fyrir því að það eru ótrúlega mörg gil sem heita Hvanngil. Já, og mikið af þessum plöntum lykta vel og smakkast vel og eru góðar fyrir mann. Fyrir nokkrum árum fór ég til Skotlands í jurtatínsluferð sem tengdist líka sjávarplöntum. Það er eiginlega næsta skref hjá mér. Ég vil bjóða bæði upp á ferðir á íslensku og ensku. Ég hef talað um þetta í fjögur ár en á meðan hef ég byggt upp ferðafyrirtækið mitt og grúskað áfram. Nú finnst mér komið að því að miðla þessari þekkingu um plönturnar.“

Sofum saman er nýtt hlaðvarp. Þar fáum við góða gesti sem hafa glímt við ýmis konar svefnvanda eða luma á góðum ráðum varðandi svefninn. 

sofumsaman.is

...more
View all episodesView all episodes
Download on the App Store

Sofum samanBy sofumsaman.is