Í fréttum er þetta helst
Ríkisráðsfundur var haldinn á Bessastöðum í dag. Þar samþykkti Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, breytingar í ráðherrahópi ríkisstjórnar Kristrúnar Forstadóttur.
Karlmaður á sjötugsaldri lést í vinnuslysi á Hvolsvelli í gær.
Nýr félags- og húsnæðismálaráðherra segist ætla að taka til hendinni í málaflokknum. Sveiflur á húsnæðismarkaði hafi verið einn helsti drifkraftur verðbólgu síðasta áratuginn.
Þrír voru handteknir vegna gruns um íkveikju í einbýlishúsi í Breiðholti. Málið er til rannsóknar hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sem tók við vettvanginum eftir að Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins slökkti allan eld.
Lögreglan á Suðurlandi naut aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra þegar tveir voru handteknir á Selfossi í kvöld.
Meirihluti landsmanna er hlynntur upptöku viðræðna við Evrópusambandið samkvæmt könnun Maskínu. Könnunin var gerð í desember og prófessor í stjórnmálafræði telur líklegt að afstaða fólks sé að taka hröðum breytingum samhliða vendingum á alþjóðavísu. Geri megi ráð fyrir algjörri uppstokkun í umræðu um kosti og galla aðildar.
Íslenska karlalandsliðið í handbolta tapaði fyrir því franska, 31-29, í síðasta leik sínum fyrir Evrópumótið. Frakkar tryggðu sér sigurinn með því að skora tvö síðustu mörk leiksins.
Takk fyrir í dag, sjáumst á morgun.