Í fréttum er þetta helst
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur fallið frá áformum sínum um að setja tolla á Danmörku og sjö önnur Evrópuríki vegna Grænlands. Trump fundaði með Mark Rutte, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, eftir ræðu sína á alþjóðaefnahagsráðstefnunni í Davos í dag og hafa þeir lagt grunninn að framtíðarsamkomulagi á norðurslóðum.
Fimm hafa verið handteknir í tengslum við rannsókn héraðssaksóknara á starfsemi fyrirtækisins Vélfags. Einn þeirra er stjórnarformaður fyrirtækisins, Alfreð Tulinius. Hinir fjórir tengjast starfsemi fyrirtækisins á einn eða annan hátt.
Guðmundur Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, segir eðlilegt að Íslendingar séu áhyggjufullir á tímum þar sem leiðtogi Bandaríkjanna sýni að hann sé tilbúinn að brjóta alþjóðalög. Trump hefur undanfarið gengið á eftir því að hefja viðræður um að fá yfirráð yfir Grænlandi, þrátt fyrir skýr skilaboð frá Dönum og Grænlendingum um að það komi ekki til greina.
Varnarmaðurinn Elvar Örn Jónsson handarbrotnaði í glæstum sigri Íslands á Ungverjalandi í gærkvöld. Hann þarf að undirgangast aðgerð sem hann fer í hér heima strax á morgun. En Snorri Steinn hefur kallað inn mann í stað Elvars Arnar. Það er Elvar Ásgeirsson, leikmaður Ribe-Esbjerg og hann flýgur út til Svíþjóðar strax í kvöld.
Dagur Sigurðsson og Króatía mættu Svíþjóð í kvöld í úrslitaleik um efsta sæti E-riðils á EM karlalandsliða í handbolta. Þar beið króatíska liðið lægri hlut og liðið fer því án stiga inn í milliriðil.
Miðflokkurinn mælist með 22,2 prósent í nýrri könnun Maskínu og eykst fylgið um þrjú prósent milli mánaða. Samfylkingin mælist með 27 prósent og því munar einungis tæpum fimm prósentustigum á flokkunum. Viðreisn mælist stærri en Sjálfstæðisflokkurinn.
Borgarstjórn samþykkti í gær tillögu meirihlutans sem meðal annars felur í sér um 2,4 milljarða króna eiginfjárframlag til Félagsbústaða á næstu fimm árum. Tillagan var afgreidd í borgarstjórn, þrátt fyrir að skýrsla um stöðu Félagsbústaða hafi ekki verið gerð opinber, en í skýrslunni eru meðal annars settar fram tillögur um fjárhagslega endurskipulagningu stofnunarinnar.
Takk fyrir í dag, sjáumst á morgun.