Í fréttum er þetta helst
RÚV hefur ákveðið að hætta við að halda Söngvakeppnina 2026 í ljósi þess að forsendurnar sem lagt var upp með, að sigurlagið yrði framlag Íslands í Eurovision, séu brostnar. Ekki hefur verið tekin ákvörðun hvort og þá hvenær einhverskonar önnur söngvakeppni verður haldin í staðinn.
Héraðsdómur Reykjaness féllst ekki á gæsluvarðhaldskröfu héraðssaksóknara yfir manni sem hefur verið ákærður fyrir að nauðga tíu ára dreng í Hafnarfirði um miðjan september síðastliðinn.
Sigurjón Þórðarson verður formaður fjárlaganefndar og Ásthildur Lóa Þórsdóttir verður nýr þingflokksformaður Flokks fólksins eftir breytingar sem gerðar verða á ráðherraliði flokksins. Á móti tekur Lilja Rafney Magnúsdóttir við formennsku í atvinnuveganefnd af Sigurjóni. Stefnt er að því að Ragnar Þór Ingólfsson taki embætti félags- og húsnæðismálaráðherra á ríkisráðsfundi um helgina og þá tekur Inga Sæland alfarið yfir embætti mennta- og barnamálaráðherra eftir brotthvarf Guðmundar Inga Kristinssonar úr ráðherrastóli.
Magnús Eiríksson, texta- og lagahöfundur, er látinn 80 ára að aldri.
Danól, í samráði við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, hefur hafið innköllun á NAN Expert Pro HA 1 og NAN Pro 1 þurrmjólk með lotunúmerunum 51690742F4, 51180346AC og 51250346AC. Áður hafði verið tilkynnt sérstaklega að ekki væri ástæða til þess að innkalla þurrmjólkina hér á landi en þá hafði það verið gert í Noregi.
„Við viljum ekki vera Ameríkanar, við viljum ekki vera Danir, við viljum vera Grænlendingar,“ segir í sameiginlegri yfirlýsingu formanna þingflokka Grænlands sem birt var á síðu ríkisstjórnar landsins í dag.
„Nú erum við bara komin að mörkum. Þetta varðar ekki bara starfsfólkið, þetta varðar líka sjúklingana. Við erum með dæmi um sjúklinga sem geta ekki verið í meðferð af því þeir finna fyrir einkennum. Og það viljum við ekki; að fólk þurfi frá að hverfa af því það finni fyrir myglueinkennum,“ segir Svana Helen Björnsdóttir, forstjóri Reykjalundar í Mosfellsbæ. Hún segir að staða Reykjalundar sé erfið. Hallarekstur var upp á 280 milljónir í fyrra og er mygla í húsnæðinu sem kostar mikið að gera við, segir Svana.
Takk fyrir í dag, sjáumst á morgun.