Í fréttum er þetta helst
Mikill eldsvoði kviknaði í Gufunesi í Reykjavík og sást reykur víða um höfuðborgarsvæðið. Slökkviliðið hefur náð tökum á eldinum. Stjórnarformaður True North segir að mikið tjón hafi orðið á eignum framleiðslufyrirtækisins en TrueNorth leigir skemmuna af Reykjavíkurborg.
Héraðssaksóknari hefur kært úrskurð Héraðsdóms Reykjaness, um að hafna kröfu um gæsluvarðhald yfir Helga Bjarti Þorvarðarsyni, sem ákærður hefur verið fyrir að nauðga tíu ára dreng, til Landsréttar.
Landsstjórn Grænlands sagði í yfirlýsingu nú síðdegis að grænlenska þjóðin geti með engu móti fallist á að Bandaríkin taki yfir Grænland. Grænland sé hluti af danska konungsríkinu og þannig með aðild að Atlandshafsbandalaginu sem beri að tryggja varnir landsins.
Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur birt til umsagnar drög að reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd samræmds námsmats í grunnskólum. Samkvæmt reglugerðinni verða niðurstöður þessara prófa gerðar opinberar, bæði hvað varðar árangur nemenda á landsvísu sem og í einstökum grunnskólum.
Óveðrið valdið víðtækum samgöngutruflunum á Austurlandi. Margir vegir eru ófærir, rask hefur verið á almenningssamgöngum og björgunarsveitir hafa komið mörgum til bjargar sem ekki komust leiðar sinnar.
Tveir ráðuneytisstjórar hafa verið færðir til á milli ráðuneyta í framhaldi af breytingum sem gerðar voru á ríkisstjórn um helgina. Breytingarnar hafa þegar tekið gildi.
Skurðæknir hjá Klíníkinni í Ármúla segir heilbrigðiskerfið ekki anna eftirspurn eftir aðgerðum vegna endómetríósu. 188 konur eru á biðlista eftir aðgerð hjá Klíníkinni á þessu ári og hann óttast að biðin lengist að óbreyttu úr einu ári í tvö ár.
Takk fyrir í dag, sjáumst á morgun.