Í fréttum er þetta helst
Jarðskjálfti af stærð 3,1 varð við Kleifarvatn sunnan höfuðborgarsvæðisins klukkan 01:48 í nótt. Um er að ræða þekkt jarðskjálftasvæði.
Lögregla gerði rassíu á starfsstöðvar Smáríkisins og Nýju vínbúðarinnar síðdegis í dag og var þeim gert að loka afhendingarstöðum sínum. Fyrirtækin verða sektuð en lögregla sagði heimsendingar í lagi þó hátíðardagur sé.
Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði menn á Keflavíkurflugvelli í vor sem voru komnir hingað til lands til að fremja ofbeldisverk. Aðstoðaryfirlögregluþjónn á Suðurnesjum segir að ekki hafi verið um að ræða hryðjuverk gegn almenningi, heldur ákveðinn ofbeldisverknað tengdan skipulagðri brotastarfsemi.
Konur á aldrinum átján fram á níræðisaldur dvöldu í Kvennaathvarfinu yfir jólin. Jólahaldið var eins og á stóru heimili, en sporin þangað geta verið þung.
Fjórir unglingar voru á dögunum sakfelldir í Héraðdómi Reykjavíkur fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, frelsissviptingu, hótanir og rán sem beindist gegn unglingspilti í apríl í fyrra. Þau hlutu átta til fjögurra mánaða skilorðsbundna refsingu.
Ísrael hefur formlega viðurkennt sjálfstæði Sómalílands sem klauf sig frá Sómalíu árið 1991 fyrst allra landa. Sómalílendingar fagna ákvörðuninni ákaft en stjórnvöld nágrannaríkja fordæma hana harkalega.
Volodýmýr Selenskí Úkraínuforseti mun funda með Donald Trump Bandaríkjaforseta „í náinni framtíð“ og segir hann að margt geti ráðist fyrir árslok.
Takk fyrir í dag, sjáumst á morgun.