Í fréttum er þetta helst
Samherji gæti tvöfaldast að stærð nái áform í landeldi fram að ganga að sögn forstjóra félagsins. Félagið hyggist ráðast í þrjátíu milljarða króna fjárfestingu í greininni á næstu misserum með innlendum og erlendum fjárfestum.
Það var að eigin frumkvæði lögreglu sem ráðist var í lokanir fjögurra verslana á höfuðborgarsvæðinu í gær vegna gruns um ólöglega sölu áfengis á hátíðardögum. Forsvarsmenn fyrirtækjanna gætu átt sekt yfir höfði sér fyrir brot á reglugerð um smásölu og áfengisveitingar, að sögn Árna Friðleifssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Auðvelt er að eiga við akstursmæla í bílum með einföldum búnaði. Mikið hefur verið leitað til Félags íslenskra bifreiðaeigenda vegna kílómetragjaldsins, því fólk vill fá að vita hvernig eigi að skrá réttar upplýsingar, og eins hefur borið á því að fólk velti fyrir sér hvernig hægt sé að svindla á kerfinu.
Hundruð þúsunda eru án rafmagns í Kyiv, höfuðborg Úkraínu, eftir loftárásir Rússlandshers á borgina í nótt og morgun. Einn lést í árásunum og nítján særðust, þar á meðal tvö börn.
Hafin er söfnun fyrir Kjartan Guðmundsson, mann sem liggur þungt haldinn á spítala í Suður-Afríku eftir umferðaslys þar í landi. Hann er faðir drengs sem er í fíknimeðferð hjá stofnuninni Healing Wings í Suður-Afríku.
Níu hafa verið handteknir í Ítalíu fyrir að safna rúmlega milljarði íslenskra króna fyrir Hamas-samtökin á Gasa. Fjármununum var safnað undir því yfirskyni að þeir myndu renna til mannúðaraðstoðar í Palestínu.
Íbúar í Öræfum hafa stofnað til undirskriftasöfnunar til að mótmæla byggingu um 70 smáhýsa fyrir ferðamenn á mörkum Vatnajökulsþjóðgarðs við Skaftafell. Íris Ragnarsdóttir Pedersen, kennari og leiðsögumaður, býr í Svínafelli í Öræfum.
Takk fyrir í dag, sjáumst á morgun.