Í fréttum er þetta helst
Miðflokkurinn mælist með tæplega 22 prósenta fylgi í nýjum þjóðarpúlsi Gallup en hann bætir rúmum tveimur prósentustigum við sig milli mánaða. Samanlagt fylgi stjórnarflokkanna fellur um fjögur prósentustig frá síðasta þjóðarpúlsi og mælist nú 47 prósent.
Kvikuhlaup og eldgos á Sunhnúksgígaröðinni er komið á tíma samkvæmt öllum breytum sem voru til staðar fyrir fyrri kvikuhlaup. Því gæti gosið hvað úr hverju. Náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni segir stofnunina vera í góðu sambandi við Grindvíkinga og að vel sé fylgst með þróuninni.
Ýmsar gjalda- og skattahækkanir og aðrar breytingar taka gildi um áramótin, en fjármagnstekjuskattur vegna leigutekna gæti í ákveðnum tilfellum hækkað um tugi þúsunda á mánuði. Fjármálaráðherra vill meina að ríkisstjórnin hafi ekki hækkað skatta á „venjulegt vinnandi fólk“ og segir að áhrif á heimilin ættu ekki að vera mikil. Þá kveðst hann stoltastur af þeim breytingum sem gerðar voru á veiðigjaldinu í ár, af þeim breytingum sem gerðar hafa verið á sköttum og gjöldum á árinu.
Kolbrúnu Bergþórsdóttur og Víði Sigurðssyni hefur verið sagt upp störfum á Morgunblaðinu.
Þrír erlendir ferðamenn eru alvarlega slasaðir á sjúkrahúsi eftir bílslys nærri Fagurhólsmýri á Suðurlandi í gær. Tvær þyrlur landhelgisgæslunnar voru kallaðar út á sjötta tímanum. Einn hefur verið útskrifaður af sjúkrahúsi. Þetta staðfestir Einar Sigurjónsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi, við fréttastofu.
Svokölluðu Skjólshúsi er ætlað að vera úrræði fyrir fólk í tilfinningalegri krísu vegna andlegra áskorana. Um er að ræða tilraunaverkefni til þriggja ára og vonandi lengur að sögn ráðherra. Fimm komast að á hverjum tíma og geta dvalið þar í tvær vikur. Formaður Geðhjálpar er í skýjunum og segir draum að rætast.
Ekki verður gefið upp hve mikið eldsneytisverð lækkar vegna breytinga á opinberum gjöldum fyrr en á nýársnótt.
Takk fyrir í dag, sjáumst á morgun.