Björk og Smekkleysa notfæra sér nýjustu tækni og koma sér fyrir á internetinu. Hin 16 ára gamla Emilíana Torrini slær í gegn í Söngkeppni framhaldsskólanna og syngur sig á topp vinsældalista landsins með hljómsveitinni Spoon. Unun veitir Ást í viðlögum og flytur Lög unga fólksins.
Maus malar Músíktilraunir og Sigur Rós fæðist í Fellahelli. Birthmark gefur út óskrifaðar skáldsögur en listræn þreyta segir til sín hjá Nýdanskri. Páll Óskar gerist Milljónamæringur en þjóðin heldur að hann sé kominn í Bogomil Font. Hárið fer á svið í Íslensku óperunni og slær öll aðsóknarmet á meðan Jet Black Joe fer í fjórða sæti á Filippseyjum. Dos Pilas ferðast á eigin vængjum og Vinir vors og blóma eru frjálsir en Spinal Tap Íslands heldur lokatónleika í Tunglinu á meðan Björk er valin besta erlenda söngkonan og besti nýliðinn á Brit Awards hátíðinni.
Árið er 1994
Tólfti þátturinn í útvarpsþáttaröðinni Árið er .... Íslensk dægurlagasaga í tali og tónum fer í loftið á Rás 2 klukkan 16.05 laugardaginn 20. júlí og verður endurfluttur sunnudagskvöldið 21. júlí kl. 22.05. Meðal viðmælenda í tólfta þættinum, þar sem íslenska tónlistarárið 1994 verður tekið fyrir, eru Gunnar Lárus Hjálmarsson, Eyþór Arnalds, Þór Eldon, Sjón, Ingólfur Magnússon, Emilíana Torrini, Jón Ólafsson, Björk Guðmundsdóttir, Eggert Gíslason, Elíza Newman, Steingrímur Guðmundsson, Páll Óskar Hjálmtýsson, Baltasar Kormákur, Georg Holm, Gunnar Bjarni Ragnarsson, Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, Jón Símonarson, Ingimundur Elli Þorkelsson og Óttar Proppé.