Maus ímeilar þig en Helgi Björns skrifar þér ljóð á kampavínstappa. Björk gerir Homogenic og hreppir tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs en Páll Óskar dansar sinn hinsta dans.
Botnleðja hitar upp fyrir Blur og skálar við Robbie Fowler, Gus Gus treður upp víðs vegar um heiminn en Unun sér rautt í útrásarmeiki. Dr. Gunni gerir barnaplötu og slær í gegn með Prumpufólkinu með hjálp frá Jóni Gnarr og fleiri góðum vinum.
Quarashi sparkar ellipoppurum út í hafsauga en Skítamórall meikar það á sveitaballarúntinum og Fjölnir elskar Mel B.
Liðsmenn Lands og sona eru Vöðvastæltir en stóra spurningin er: Trúir Bubbi Morthens á engla?
Árið er 1997
Fimmtándi þátturinn í útvarpsþáttaröðinni Árið er .... Íslensk dægurlagasaga í tali og tónum fer í loftið á Rás 2 klukkan 16.05 í dag, laugardaginn 10. ágúst og verður endurfluttur sunnudagskvöldið 11. ágúst kl. 22.05.
Meðal viðmælenda í fimmtánda þættinum, þar sem íslenska tónlistarárið 1997 verður tekið fyrir, eru Eggert Gíslason, Páll Óskar Hjálmtýsson, Hreimur Örn Heimisson, Heiðar Örn Kristjánsson, Haraldur Freyr Gíslasson, Barði Jóhannsson, Gunnar Lárus Hjálmarsson, Sölvi Blöndal, Ragna Kjartansdóttir, Baldur Stefánsson, Jón Þór Birgisson, Ágúst Ævar Gunnarsson, Ragnhildur Gísladóttir, Gunnar Ólason, Herbert Viðarsson, Einar Ágúst Víðisson og Fjölnir Þorgeirsson.