Sigur Rós syngur á vonlensku og Mugison fæðist sem söngvari á karaókíbar í Malasíu. Írafársrússíbaninn þýtur áfram, Sálin treður upp með Melabandinu og Urður gengur í Gus Gus.
Vandræðaunglingurinn Þórunn Antónía lýkur þriggja ára tónlistarnámi hjá föður sínum, Magnúsi Þór Sigmundssyni. Útrás Leaves fær fljúgandi start, Fídel gefur út plötu og geispar golunni en Land og synir fá Happy Endings.
Orri Harðar fellir tár, Brain Police finnur Jenna og Buff finnur glerbrot í vaselíninu. Græni ormurinn skríður út úr bílskúr á Skipaskaga, hárin rísa á höfði Ampopdúettsins en það þarf fólk eins og Rúnar Júl. fyrir fólk eins og þig og mig.
Árið er 2002
Fyrri hluti tuttugasta þáttarins í útvarpsþáttaröðinni Árið er .... Íslensk dægurlagasaga í tali og tónum fer í loftið á Rás 2 klukkan 16.05 laugardaginn 21. september og verður endurfluttur sunnudagskvöldið 22. september kl. 22.05.
Meðal viðmælenda þar sem fyrri hluti íslenska tónlistarársins 2002 er tekið fyrir, eru: Birgitta Haukdal, Vignir Snær Vigfússon, Guðmundur Jónsson, Stefán Hilmarsson, Sigurður Guðmundsson, Guðmundur Kristinn Jónsson, Jón Ólafsson, Örn Elías Guðmundsson, Birgir Hilmarsson, Georg Hólm, Hreimur Örn Heimisson, Magnús Þór Sigmundsson, Þórunn Antónía Magnúsdóttir, Orri Harðarson, Arnar Guðjónsson og Jón Björn Ríkharðsson.
Seinni hluti fer svo í loftið laugardaginn 28. september.