Hljómar snúa aftur og gefa út fyrstu plötu sína í 29 ár, Maus og Botnleðja tala tungum og Eberg kveður sér hljóðs.
Mínus umpólast og gefur út plötuna Halldór Laxness og Krummi syngur með Björgvini föður sínum á dúettaplötu en Sálin frumsýnir söngleik.
Barði í Bang Gang er sinnar eigin gæfu smiður og Eivör slær í gegn hjá frændum sínum en Margrét Eir bíður andartak.
Idol-æði skolar á land frá Ameríku. KK og Maggi fara í ferðalag og Ríó tríó kemur úr felum en Jónsi Í svörtum fötum hefur ekkert að fela.
Trabant slær í gegn á Airwaves hátíðinni og Funerals gera kántrýplötu uppi í sveit en Kimono segir sögur af japönskum lögreglufulltrúa.
Skytturnar rappa um lognið á undan storminum, Dys gefur út veiðileyfi á ríkisstjórnir en Land og synir eru á fjórum fótum í óðali feðranna.
Árið er 2003
Seinni hluti tuttugasta og fyrsta þáttarins í útvarpsþáttaröðinni Árið er .... Íslensk dægurlagasaga í tali og tónum fer í loftið á Rás 2 klukkan 16.05 laugardaginn 12. október og verður endurfluttur sunnudagskvöldið 13. október kl. 22.05.
Meðal viðmælenda í seinni hluta umfjöllunar um íslenska tónlistarárið 2003 eru: Gunnar Þórðarson, Rúnar Júlíusson, Eggert Gíslason, Eivör Pálsdóttir, Margrét Eir Hjartardóttir, Hrafnkell Pálmarsson, Jón Jósep Snæbjörnsson, Sölvi Blöndal, Barði Jóhannsson, Lárus Jóhannesson, Anna Hildur Hildibrandsdóttir, Einar Kristjánsson, Ragnar Kjartansson, Þorvaldur Gröndal, Björn Stefánsson, Þorkell Máni Pétursson, Björgvin Halldórsson, Guðmundur Jónsson, Þór Freysson, Heiðar Örn Kristjánsson, Einar Tönsberg og Hreimur Örn Heimisson.