Hjálmar slá í gegn með suðrænum og seiðandi reggítónum og partýhetjan Love Guru stígur fram á sjónarsviðið. Nylon er alls staðar, Raggi Bjarna er í flottum jakka, Ragnheiður Gröndal syngur vetrarljóð en Ellen Kristjáns syngur sálma.
Mammút sigrar í Músíktilraunum, Múm leggur land undir fót en Geir Harðarson nemur land og spilar og syngur í mónó. Bubbi syngur um íslenska sjómenn og skoðar Tómasarguðspjallið en Rafn Jónsson fer í Abbey Road hljóðverið og kveður sáttur.
Mínus túrar beggja vegna Atlantshafsins, Brain Police æfir stíft og Aldrei fór ég suður fer af stað en Hvanndalsbræður eru hrútleiðinlegir. Það eru gleðitímar hjá Kalla Bjarna, Í svörtum fötum heldur tryllt böll og Stuðmenn eru í takt við tímann.
Árið er 2004
Seinni hluti tuttugasta og annars þáttarins í útvarpsþáttaröðinni Árið er.... Íslensk dægurlagasaga í tali og tónum fór í loftið á Rás 2 klukkan 16.05 laugardaginn 26. október og verður endurfluttur sunnudagskvöldið 27. október kl. 22.05.
Meðal viðmælenda í seinni hluta umfjöllunar um íslenska tónlistarárið 2004 eru: Guðmundur Kristinn Jónsson, Ragnheiður Gröndal, Örn Elías Guðmundsson, Einar Jónsson, Þórður Helgi Þórðarson, Margrét Eir Hjartardóttir, Einar Bárðarson, Ragnar Bjarnason, Rafn Ragnar Jónsson, Egill Örn Rafnsson, Ragnar Sólberg Rafnsson, Bubbi Morthens, Birgitta Haukdal, Erpur Eyvindarson, Jón Björn Ríkharðsson, Björn Stefánsson og Þorkell Máni Pétursson.