Of Monsters & Men gerir það gott með sinni fyrstu plötu og Jón Jónsson syngur sig inn í hug og hjarta íslensku þjóðarsálarinnar.
Hjálmar rafvæðast, hljómsveitin HAM snýr aftur, Bubbi semur og syngur sálartónlist og dúettinn Eldar er dropi í hafi í fjarlægri nálægð.
Snorri Helgason heillast af vetrarsólinni, Kjarr bíður eftir sumrinu, Ragnheiður Gröndal nær áttum og Toggi flettir í dagbókinni þinni.
Sóley Stefáns slær í gegn á Youtube, sólóverkefnið Sin Fang Bous breytist í hljómsveitina Sin Fang og Vicky Pollard breytist í Vicky.
Páll Óskar kveður Háskólabíó og heilsar Hörpu með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Samaris ber sigur úr býtum Músíktilraunum.
Hljómsveitin 1860 syngur um svaðilför á Snæfellsnesi en liðsmenn FM Belfast eru í svo miklu stuði að þeir neita að ganga til náða?
Árið er 2011
Fyrri hluti tuttugasta og níunda þáttarins í útvarpsþáttaröðinni Árið er .... Íslensk dægurlagasaga í tali og tónum fer í loftið á Rás 2 klukkan 16.05 sunnudaginn 25. janúar og verður endurfluttur þriðjudagskvöldið 27. janúar kl. 22.05