Retro Stefson er hampað sem líflegasta bandi landsins og Þórunn Antonía og Berndsen rugla saman reytum sínum með dansvænu vinsældapoppi.
Kiriyama Family heillar landann með grúvknúnu mjúkpoppi, Friðrik Dór er vélrænn, Elíza Newman er með heimþrá en Ylja flytur fallega og angurværa þjóðlagatónlist.
Það er sumar hvern einasta dag hjá Mannakorni, Hreimur Örn er agndofa en Sigurður Guðmundsson og Memfísmafían sötra síðasta móhítóinn um blánótt á Kúbu.
Moses Hightower tekur stutt skref og fer upp á háa C, Bubbi segir sögur úr þorpinu, Múgsefjun fær ekki nóg en Borko er frjálsborinn maður.
Stúlknatríóið Charlies reynir við ameríska drauminn, Ghostigital svífur inn í draumalandið með David Byrne en Helgi Júlíus hvetur Íslendinga til að standa saman.
Magnús og Jónas gæta hugsana sinna, Skálmöld berst við börn Loka en Ásgeir Trausti og Blaz Roca heilla dömurnar með derhúfu og hvítum skóm.
Árið er 2012