Guðmundur G. Þórarinsson fv. forseti Skáksambands Íslands og Bobby Fischer fyrrum heimsmeistari í skák. Umsjón: Margrét Blöndal Það má hæglega segja að þetta stefnumót sé hluti af rúmlega 40 ára dramatískri sögu sem hófst með því að Skáksamband Íslands sótti um að halda heimsmeistarkeppni í skák árið 1972. Guðmundur G. Þórarinsson verkfræðingur var þá forseti Skáksambandsins sem varð mun átakameira embætti en hann óraði fyrir þegar hann tók við. Enn líður varla sá dagur að hann sé ekki beðinn um að rifja upp eitthvað sem tengist einvígi aldarinnar og þá kannski sérstaklega hinum goðsagnakennda heimsmeistara Bobby Fischer. Það má vel ímynda sér að þeir séu báðir staddir í hljóðstofu 9; Fischer fámáll eins og oftast í fjölmiðlum svo Guðmundur hefur að mestu orðið. Að auki má heyra hljóðbrot með gömlum fréttum af einvíginu. Lesarar eru Ólafur Ragnarsson og Guðjón Einarsson.