Rit þýska skáldsins Fredrichs Schiller Um fagurfræðilegt uppeldi mannsins vakti mikla athygli þegar það birtist fyrst í þremur hlutum í tímaritinu Die Horen árið 1795. Verkið, sem skiptist í 27 bréf, mótast af heimspeki Kants annarsvegar, frönsku byltingunni hins vegar, en í því færir Schiller rök fyrir því að ímyndunarafl og sköpunargáfa – í einu orði leikurinn – sé ekki aðeins mikilvæg viðbót við skilningsgáfu mannsins, heldur forsenda mennskunnar. Fagurfræði Schillers undirstrikar líka pólitíska greiningu hans á samtíðinni, því hann gerir sér ljóst að upplýsingin, heimspeki Kants og franska byltingin getur haft hinar verstu afleiðingar fyrir samfélagið fái sköpun og listir ekki að dafna.