MANNLEGI ÞÁTTURINN MIÐVIKUDAGUR 21.ÁGÚST 2019 UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON Rótin er félag áhugakvenna með það að markmiði að stofna til umræðu um konur, fíkn, áföll, ofbeldi og geðheilbrigði og huga að sérstökum meðferðarúrræðum fyrir konur. Hausstarf Rótarinnar verður kynnt á fundi í kvöld og við ætlum að fá Kristínu I. Pálsdóttur til að segja okkur frá því sem er í boði. St. Jósefsspítali var byggður 1926 af St. Jósefssystrum sem ráku þar spítala til ársins 1987 en þá seldu þær ríki og Hafnarfjarðarkaupstað spítalann. Í húsnæðinu var rekinn spítali til ársins 2011 en þá var spítalanum lokað. St. Jósefsspítali hefur nú nýtt hlutverk sem Lífsgæðasetur. Þar verður fjölbreytt og lifandi starfsemi á sviði heilsuverndar og sköpunar í samræmi við heilsustefnu Hafnarfjarðar. Eva Michaelsen kemur og segir okkur nánar frá. Við fáum póstkort frá Magnúsi R. Einarssyni á Spáni og í dag inniheldur það frásögn af lottóáhuga Spánverja en lottó hefur verið hér samfellt frá miðri átjándu öld og hefur ekki fallið niður þrátt fyrir styrjaldir og óáran. Það segir líka hvernig Benidorm varð fyrsti massatúrismastaðurinn í Evrópu, og að lokum segir Magnús frá vaxandi glæpaöldu í Barcelona.