„Skaðleg karlmennska? Greining á bókinni Mannasiðir Gillz“ heitir ritrýnd grein frá 2011 eftir Ástu Jóhannsdóttur og Kristínu Önnu Hjálmarsdóttur þar sem þær reyna að fanga þá karlmennskuhugmynd sem haldið er á lofti í bókinni. Niðurstaða þeirra er meðal annars að sú karlmennskuhugmynd sem þar kom fram virðist líkleg til að stuðla að skaðlegri karlmennsku og vinna gegn þróun í jafnréttisátt. Bókin kom hins vegar út árið 2009 og greinin 2011, en Gillz eða Egill Einarsson er ennþá í sviðsljósinu og að því er virðist hefur ekki umturnað orðræðu sinni né karlmennskuhugmyndum. Þess vegna lék mér forvitni á að heyra í öðrum höfundi greinarinnar og velta upp hvort úr þessum áhrifum hafi ræst og hvaða karlmennskuhugmyndir eru ríkjandi í dag.
Ásta mætti ásamt syni sínum Mikael þar sem við spegluðum rannsóknir Ástu í reynsluheimi Mikaels sem er tvítugur. Ræddum skaðlega karlmennsku, andspyrnu við jafnrétti hjá ungum strákum, líkamsháravöxt og ögun karlmennsku- og kvenleikahugmynda.
Umsjón: Þorsteinn V. Einarsson
Músík: Mr. Silla - Naruto (án söngs)
Þátturinn er í boði Veganbúðarinnar, The Body Shop, Dominos og bakhjarla Karlmennskunnar.