Húsfyllir var á Vinnustofu Kjarvals á dögunum þegar ríflega 150 klúbbmeðlimir mættu til leiks á þriðja viðburð Bókaklúbbs Spursmála.
Þar settist Kári Stefánsson, stofnandi Íslenskrar erfðagreiningar, niður með Stefáni Einari Stefánssyni, ásamt klúbbmeðlimum, og ræddi efni bókarinnar 1984 eftir George Orwell á hispurslausan og líflegan hátt eins og hans er von og vísa.
Viðraði Kári til að mynda hugmyndir um hvar hægt sé að sjá birtingarmyndir af Stóra bróður í heiminum í dag. Er hann sannfærður um að víða glitti í það fyrirbæri með beinum eða óbeinum hætti.
Bókin var bók mánaðarins í Bókaklúbbi Spursmála í júnímánuði.
Sjálfur las Kári bókina fyrst fyrir nærri hálfri öld síðan en efni hennar hafði áhrif á Kára, eins og fleiri, enda um eina áhrifamestu bók 20. aldar bókmennta að ræða. Hefur hún frá fyrstu útgáfu haft mótandi áhrif á hugmyndir manna um samspil ríkisvalds og einstaklingsfrelsis sem vel er hægt að heimfæra á samtímann sem við lifum nú.
Að mati Kára er byggir saga Orwells á ýkjum. Raunar þykir honum sagan að mörgu leyti fráleit því hún gengur eins langt og hugsast getur í því að lýsa samfélagi sem er í heljargreipum alræðis og svipt sjálfstæðri hugsun og frelsinu um leið. Sem í margra eyrum kann reyndar að hljóma kunnulega.
Það bar þó margt á góma í samtali þeirra Kára og Stefáns Einars. Má þar helst nefna upplifun hans og reynslu af alræðissamfélögum dagsins í dag, kórónuveirufaraldurinn, stjórnarfarið í Kína, ríkisvaldið hér á landi og lýsingar hans af samskiptum sem hann átti við þáverandi heilbrigðisráðherra, Svandísi Svavarsdóttur. Sagði hann að þar hafi stálin stinn mæst en einhverjir myndu kannski frekar segja að þar hafi skrattinn hitt ömmu sína - dæmi nú hver fyrir sig.
Á annað þúsund manns hafa skráð sig í klúbbinn á þeim fjórum mánuðum sem hann hefur verið starfandi og fjölgar þar enn. Nú í júlímánuði sitja klúbbfélagar við og lesa bók Sigurðar Más Jónssonar, Afnám haftanna: samningar aldarinnar? sem er bók þessa mánaðar á vettvangi klúbbsins. Af því tilefni fæst hún á sérstöku tilboði í verslunum Pennans Eymundsson.
Hægt er að skrá sig í klúbbinn með því að smella hér.
Samstarfsaðilar Bókaklúbbs Spursmála eru Samsung, Kerecis, Brim og Penninn.