Berglind Berghreinsdóttir var aðstandandi föður sem glímdi við heilabilun og hann lést að lokum í upphafi síðasta árs. Síðan þá hefur hún verið að vekja umræðu og athygli á aðstæðum fólks með heilabilun og aðstandenda þeirra, sem hún segir vera skelfilega dapurleg. Hún talar um ferðalag fjölskyldunar í frumskógi heilbrigðis-og velferðakerfisins þar sem þau rákust á endalausa veggi. Sumt hafi verið flókið og sumt hreinlega ómanneskjulegt. Berglind kom í þáttinn og sagði frá þeirra reynslu.
Ljósmyndin hefur tekið miklum breytingum síðan hún kom fyrst fram sem tjáningarform, bæði hvað varðar tækni og vinnslu en ekki síður sem merkingarberi í samfélagi sem snýst æ meira um birtingarmyndir okkar í augum annarra. Brynhildur Björnsdóttir er fjölmiðlakona og líkamsvirðingarsinni sem leggur nú lokahönd á MA-ritgerð í Menningarfræði við HÍ. Sjálfsmynd með augum annarra er yfirskrift hádegiserindis Brynhildar sem fram fer í Ljósmyndasafninu í Reykjavíkur í hádeginu á morgun.
Svo er það hljómsveitin Mezzoforte „Það fer enginn í Top of The Pops nema að vera með „hit-lag,“ sagði Steinar Berg útgefandi hljómsveitarinnar, sem var fyrsta íslenska hljómsveitin til að „meika það“ utan landsteinanna. Farið er yfir rúmlega fjörutíu ára sögu Mezzoforte í nýrri heimildarmynd í tveimur hlutum, en sá fyrri er á dagskrá RÚV í kvöld. Gunnlaugur Briem, trommuleikari hljómsveitarinnar var gestur Mannlega þáttarins í dag.
Umsjón Guðrún Gunnarsdóttir og Gunnar Hansson