Föstudagsgesturinn í þetta sinn var Andri Snær Magnason rithöfundur. Við ræddum við hann um þessa skrýtnu tíma sem við erum öll að upplifa og svo átti að frumsýna nýja íslenska kvikmynd í fullri lengd, Þriðji Póllinn heitir hún. En frumsýningunni á henni hefur verið frestað eins og svo mörgu þessa dagana. Andri Snær er annar leikstjóra myndarinnar og einn framleiðenda. Myndin er heimildarmynd um geðhvörf með söngvum og fílum. Söguhetjur eru Högni Egilsson, tónlistarmaður, og Anna Tara Edwards, íslensk kona sem ólst upp í frumskógum Nepals innan um tígrisdýr og nashyrninga. Sem sagt skrýtnir tímar, tígrisdýr, nashyrningar og geðhvörf með Andra Snæ í dag.
Matarspjallið með Sigurlaugu Margréti Jónasdóttur var á sínum stað í þættinum í dag. Í dag fjallaði hún um hvernig hægt er að gleðjast yfir morgunmat, leggja fallega á borð njóta og hún kom líka með hugmyndir að litlum veislum fyrir tvær til fjórar manneskjur.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON