Botnleðja breytist úr tríói í kvartett, Kolrassa breytist í Bellatrix en 200.000 naglbítar brjóta það sem brotnar.
Ensími tekur upp sína fyrstu plötu án þess að hafa troðið upp á tónleikum og ofursmellurinn Farin með Skítamóral slær í gegn á mettíma.
Alda Björk nær 7. sæti breska smáskífulistans og upplifir í kjölfarið bæði góða tíma og slæma en Damon Albarn spólar upp veggi Stúdíó Sýrlands í stuttbuxum og takkaskóm.
Súkkatdúettinn dreymir um straum, Land og syni dreymir um Terlín en heimþráin endar útrásardrauma Dead Sea Apple. Popp í Reykjavík fer á hvíta tjaldið og Tvíhöfði syngur Útlenska lagið.
Íslenski hiphop akurinn vex og dafnar en Ný dönsk spókar sig í Blómarósahafi í Húsmæðragarðinum. Beggi í Sóldögg er Villtur, Barði í Bang Gang er So Alone en Sálin er orginal.
Árið er 1998
Sextándi þátturinn í útvarpsþáttaröðinni Árið er .... Íslensk dægurlagasaga í tali og tónum fer í loftið á Rás 2 klukkan 16.05 í dag, laugardaginn 17. ágúst og verður endurfluttur sunnudagskvöldið 18. ágúst kl. 22.05.
Meðal viðmælenda í sextánda þættinum, þar sem íslenska tónlistarárið 1998 verður tekið fyrir, eru Einar Ágúst Víðisson, Gunnar Ólason, Herbert Viðarsson, Hreiðar Örn Kristjánsson, Haraldur Freyr Gíslasson, Bubbi Morthens, Arnþór Örlygsson, Gunnar Lárus Hjálmarsson, Heiða Eiríksdóttir, Elíza Geirsdóttir Newman, Hrafn Thoroddsen, Franz Gunnarsson, Hreimur Örn Heimisson, Baldur Stefánsson, Alda Björk Ólafsdóttir, Jakob Frímann Magnússon, Stefán Hilmarsson, Guðmundur Jónsson, Bergsveinn Arilíusson og Eiður Arnarsson.