Svala Björgvins skrifar undir risasamning í Ameríku og Leaves fær samningstilboð frá nokkrum af stærstu nöfnunum í tónlistarbransanum en Land og synir lenda í rússíbanareið sem endar með ósköpum eftir 11. september.
Björk selur tvær milljónir af Vespertine, Sigur Rós fer umhverfis jörðina á 250 dögum og galdrar fram rímur með Steindóri Andersen á Ströndum.
XXX Rottweilerhundar gelta hátt og vekja athygli hjá ungmennum landsins en Quarashi og Botnleðja troða upp með Melabandinu í Háskólabíói.
Magni Ásgeirsson er spenntur Á móti sól, Birta breytist í engil og lendir í næstneðsta sæti á Parken en Egill Ólafs finnur nýjan engil.
Sálin leitar logandi ljósi að söngleik, Milljónamæringarnir ferðast með Mambólestinni en Herbert Guðmundsson svarar á íslenskri tungu.
Trabant selur sig á auglýsingamarkaðnum og sér ekki eftir neinu en Ham snýr aftur á tónleikum hjá Rammstein og Bubbi fordæmir kynþáttahatur.
Halim breytist í Sign, Páll Óskar og Monika sofna ekki í nótt, Fabúla skilur eftir kossafar á ilinni og lífið er yndislegt.
Árið er 2001
Nítjándi þátturinn í útvarpsþáttaröðinni Árið er .... Íslensk dægurlagasaga í tali og tónum fer í loftið á Rás 2 klukkan 16.05 í dag, laugardaginn 14. september og verður endurfluttur sunnudagskvöldið 15. september kl. 22.05.
Meðal viðmælenda í nítjánda þættinum, þar sem íslenska tónlistarárið 2001 verður tekið fyrir, eru Magni Ásgeirsson, Einar Bárðarson, Birgitta Haukdal, Björk Guðmundsdóttir, Hreimur Örn Heimisson, Margrét Kristín Sigurðardóttir, Guðmundur Kristinn Jónsson, Svala Björgvinsdóttir, Björgvin Halldórsson, Viðar Hákonarson, Þorvaldur Gröndal, Erpur Eyvindarson, Ágúst Bent Sigbertsson, Einar Örn Jónsson, Jóhanna Guðrún Jónsdóttir, Haraldur Gíslason, Óttar Proppé, Guðmundur Jónsson, Stefán Hilmarsson, Páll Óskar Hjálmtýsson, Ragnar Sólberg, Egill Rafnsson, Sölvi Blöndal og Höskuldur Ólafsson.