Við heyrðum í Benedikt Karli Gröndal í Neskaupsstað, hann er leikari og skrifar fréttir á austurfrett.is. Við fengum að vita hjá honum hvernig staðan er fyrir austan, hvernig COVID veiran og allt raskið sem henni fylgir er að hafa áhrif á daglegt líf fyrir austan auk þess sem við förum yfir svonefndan austfirska lagalista handþvottsins, sem Benedikt skrifaði á austurfrett.is sem gæti nýst fólki fyrir austan og jafnvel á öllu landinu til þess að stytta sér stundir í þessari mikilvægu iðju sem handþvotturinn er.
Arnar Pétursson var valinn langhlaupari ársins 2018 á Íslandi, hann hefur verið sigursælasti langhlaupari hér á landi í karlaflokki undanfarið og í nóvember síðastliðnum kom út ansi vegleg bók eftir hann um Hlaup , frá a-ö. Við tókum viðtal við Arnar í nóvember og það var margt sem kom okkur á óvart í þessu viðtali eins og tildæmis upplýsingar varðandi göngur,hlaup og fitubrennslu. Þetta eru gagnlegar upplýsingar fyrir þá sem eru úti að ganga eða hlaupa þessar vikurnar svo við sáum fulla ástæðu til að endurflytja viðtalið.
Jón Hörður Elíasson vann nær allan sinn starfsaldur hjá Vegagerðinni og rúmlega tuttugu ár var hann rekstrarstjóri. Jón hefur nú látið af störfum og settist af því tilefni niður með Kristínu Einarsdóttur, okkar konu á Ströndum, og rifjaði upp fyrstu árin, mokstur norður í Árneshrepp og fleira.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON