Föstudagsgestur Mannlega þáttarins í þetta sinn hefur komið víða við á sínum ferli, var lengi skemmtikraftur, bæði í útvarpi og sjónvarpi, var dómari og spurningahöfundur í Gettu betur, ljóðskáld, ritstjóri og guðfræðingur. Hann er í dag prestur í Laugarneskirkju. Nú ættu einhverjir að hafa áttað sig, hann heitir Davíð Þór Jónsson. Við fengum að vita hvar hann er fæddur og uppalinn og stikluðum á stóru til dagsins í dag.
Í Kentucky fylki Bandaríkjanna árið 1939 stofnaði 28 ára gamall mandólínleikari og söngvari hljómsveit, Bill Monroe and his Blue Grass Boys. Þeir spiluðu og sungu lög um lífið í sveitum og fjallabyggðum suðurríkjanna. Bandið og tónlistarstíllinn nutu vinsælda og síðan er tónlistin í daglegu tali nefnd bluegrass. Tónlistin er spiluð á órafmögnuð strengjahljóðfæri og stór hluti undirstöðunnar er bresk þjóðlagatónlist sem barst með fólksflutningum til Ameríku á 17. öld. Síðan eru liðin mörg ár en nú kemur blágresið við í Hörpu og það er ungur maður Bragi Þór Ólafsson sem stendur fyrir tónleikum þar sem íslenskir og enskir hljóðfæraleikarar sameina krafta sína. Við hittum Braga, félaga hans og móður á heimili hans.
Sigurlaug Margrét var með sitt vikulega matarspjall í þáttinn. Hún var áfram á dönskum slóðum eins og í síðustu viku. Hún fór á heimili Karen Blixen í Rungsted og fékk leiðsögn um húsið þar sem hún sá meðal annars veisluborðið úr Gestaboði Babette.
UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON