Hvað höfum við gert? er nafnið á nýjum sjónvarpsþáttum sem verða frumsýndir á sunnudaginn á RÚV. Í þeim er farið yfir loftlagsbreytingar í heiminum. Hvað veldur þeim og hvenær byrjuðu þær? Hvaða áhrif hafa þær á jörðina og hvernig er hægt að bregðast við þeim? Þetta eru áhrifamiklir þættir um þetta stóra og mikilvæga mál þar sem hlutirnir eru settir fram á skýran hátt. Við fengum leikstjóra þáttanna, Óskar Jónasson í þáttinn til að segja okkur frá hverju megi búast við.
Nú eru fermingar framundan og þar af leiðandi fermingarveislur. Á síðunni stjuptengsl.is rákum við augun í grein sem ber yfirskritina “Ein eða tvær fermingarveislur?“ Við fengum greinarhöfundinn, Valgerði Halldórsdóttur fjölskyldu og félagsráðgjafa og spurðum hana útí hvort það geti verið vandasamt verkefni fyrir stjúpfjölskyldur að standa saman?
Steinar Þór Ólafsson pistlahöfundur hefur flutt pistla í Mannlega þættinum undanfarna fimmtudaga undir heitinu Kontoristinn þar sem hann veltir fyrir sér hinum ýmsu hliðum þess að vinna á skrifstofum hverskonar, hefðbundnum og óhefðbundnum. Vegna fjölda fyrirspurna endurfluttum við í dag fyrsta pistilinn hans þar sem hann fjallaði um vinnurými, mismunandi stefnur og strauma, opin vinnurými, skilrúm og næði og fleira.
UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON