Undanfarið hafa borist fréttir af nýju eiturlyfi sem hefur verið að ná mikilli útbreiðslu og vekur ugg hjá þeim sem til þekkja. Það kallast Spice og er ódýrt og lyktarlaust og er meðal annars hægt að neyta með rafsígarettum, eða veipi. Það er jafnvel selt undir þeim formerkjum að það sé ekki hættulegt, sem er aldeilis fjarri sanni, því það getur verið lífshættulegt. Leifur Gauti hjá rannsóknarlögreglunni kom í þáttinn og sagði meira frá Spice, útbreiðslu og hættunni sem því fylgir.
Árni Árnason rak og átti auglýsingastofu en lenti í því sem svo margir virðast lenda í að rekast á vegg. Honum fannst hann vera fastur í lífsgæðakapphlaupinu og honum fannst hann ekki hafa frelsi til að gera það sem hann raunverulega vildi, né færði honum hamingju í lífinu. Hann seldi auglýsingastofuna, endurhugsaði lífið og minnkaði hraðann svo um munar og ákvað að taka alveg nýja stefnu. Árni kom til okkar og sagði sína sögu, sem meðal annars fól í sér að skrifa barnabók og gera útvarpsþætti.
Það hlýtur að teljast til tíðinda að boðið sé á ókeypis jólatónleika. Rás 1 býður þér á jólatónleika sunnudaginn 15. desember kl. 14.00 í Hallgrímskirkju. Þar flytjur kammerkórinn Schola cantorum undir stjórn Harðar Áskelssonar klukkustundar langa dagskrá undir yfirskriftinni „Ljós og hljómar“. Á efnisskránni eru hátíðlegar endurreisnarmótettur og íslensk jólalög, m.a. frumflutningur á jólalagi Ríkisútvarpsins 2019 eftir Hafliða Hallgrímsson. Bergljót Haraldsdóttir verkefnisstjóri tónlistar á Rás 1 sagði okkur nánar frá.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON