Foreldrahlutverkið hefur breyst talsvert á síðustu hálfu öld, eða frá þeim tíma að faðirinn vann fyrir fjölskyldunni, móðirin sá um heimilið og börnin, hafði kvöldmatinn tilbúinn á háréttum tíma, milli þess að sjá um þvottinn og þrif. Sýningin Er ég mamma mín? í Borgarleikhúsinu skoðar þessa þróun sem varð á heimilum okkar og breytingarnar sem kollvörpuðu „hefðbundnu“ fjölskyldulífi. María Reyndal, leikstjóri og höfundur sýningarinnar kom í þáttinn og fór með okkur yfir þessar áhugaverðu breytingar sem snerta okkur öll.
Nýverið hóf göngu sína hlaðvarpið Vaknaðu á fjölmiðlinum N4 þar sem fjallað verður um kynjajafnrétti og femínisma. Það eru þær Ásthildur Ómarsdóttir og Stefanía Sigurdís Jóhönnudóttir sem sjá um hlaðvarpið. Þær komu til okkar í hljóðverið á Akureyri.
Nú eru mörg ár liðin frá síðustu landhelgisdeilu okkar Íslendinga og einu stríðin okkar við Breta fara fram á fótboltavellinum sem betur fer. En mögulega var landhelgisdeilan harkalegri en hægt er að lesa um sögubókum a.m.k. lenti einn lítill handfærabátur í kröppum dansi við togarann Norden queen frá Grimsby. Kristín Einarsdóttir, okkar kona á Ströndum, hitti einn úr áhöfn bátsins Jón Hörð Elíasson og fékk hann til að rifja upp þennan eftirminnilega dag á miðunum.
UMSJÓN GUNNAR HANSSON OG GÍGJA HÓLMGEIRSDÓTTIR