Íslenska óperan snýr aftur á fjalir Þjóðleikhússins með hina óborganlegu gamanóperu Brúðkaup Fígarós eftir meistara Mozart. Óperan fjallar um ást, hjónaband og stéttaskiptingu. Mikil eftirvænting ríkir í herbúðum Íslensku óperunnar og Þjóðleikhússins enda um stórviðburð að ræða sem beðið hefur verið eftir. Þess má geta að fyrsta óperuuppfærslan sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu var einmitt gestasýning frá Stokkhólmsóperunni á Brúðkaupi Fígarós - frumsýnd í júní 1950 og var margoft sýnd fyrir fullu húsi. Við fengum óperustjórann Steinunni Birnu Ragnarsdóttur í þáttinn í dag.
Hjónin, Þórður Sævarsson og Valgerður Jónsdóttir, opnuðu Smiðjuloftið á Akranesi fyrir einu og hálfu ári. Þau ákváðu að sameina áhugamál þeirra beggja undir einn hatt og sjá hvert það myndi leiða þau. Þau bjóða upp á aðstöðu til klifurs, halda tónlistarnámskeið fyrir börn og foreldra, bjóða ferðamönnum upp á íslenskt þjóðlagaprógramm og tónleika og fleira. Valgerður kom í þáttinn og sagði frá þessu framtaki þeirra hjóna.
Við fengum póstkort frá Magnúsi R. Einarssyni á Spáni. Spánverjar umgangast áfengi af miklu frjáslyndi, þeir drekka frá því snemma á morgna og fram á kvöld. Samt sést aldrei drukkið fólk. Frá þessu segir í póstkorti dagsins og jafnframt af kannabisframleiðslu í heimahúsum sem færist verulega í aukana og einnig af gríðarlegri hækkun á leiguverði húsnæðis, sem nemur fimmtíu prósentum á aðeins fimm árum.
UMSJÓN GUNNAR HANSSON OG SIGURLAUG MARGRÉT JÓNASDÓTTIR