Borgarbókasafnið Kringlunni býður upp á fjölskyldustundir fyrir verðandi foreldra og foreldra með ungabörn og börn á leikskólaaldri. Sálgreinirinn Sæunn Kjartansdóttir fjallar um mikilvægi fyrstu áranna, hlutskipti foreldra, og svarar spurningum foreldra um það sem brennur á þeim, í safninu á morgun. Hún er höfundur bókanna Árin sem enginn man og Fyrstu 1000 dagarnir. Sæunn kom í þáttinn í dag.
Eitt af verkefnum Íslenskrar málnefndar er að álykta árlega um stöðu íslenskrar tungu. Nú hefur málnefndin sent frá sér sína 13. ályktun og að þessu sinni er yfirskriftin ,,Íslenska á ferðaöld.“ Á Íslandi fer þeim óðum fjölgandi sem ekki hafa íslensku að móðurmáli. Málnefndin bendir á að Íslendingar verði að velta fyrir sér hvaða áhrif þessar nýju aðstæður kunna að hafa á íslenska tungu og kallar eftir vitundarvakningu í samfélaginu um mikilvægi íslensku. Auk þess stendur Íslensk málnefnd fyrir málræktarþingi í Þjóðminjasafninu í dag um þetta efni. Ármann Jakobsson, varaformaður Íslenskrar málnefndar kom í þáttinn.
Tímarnir breytast og mennirnir með. Margt sem var alvanalegt fyrir ekki svo mörgum árum, er gjörsamlega horfið, eða svo til, úr samtímanum. Lísa Páls fór í leiðangur í bæinn að leita að ákveðinni vöru, öskubökkum, sem fást nánast ekki í verlsunum í dag. Þóra Sigurðardóttir í Kúnígúnd varð fyrst fyrir svörum.
Umsjón Guðrún Gunnarsdóttir og Gunnar Hansson