Foreldrahús eru 33 ára grasrótarsamtök sem hafa sinnt sama hlutverki í þessi ár, að styðja og hlúa að foreldrum sem eiga börn í vímuefnavanda. Í gegnum árin hefur starfið þróast og samtökin hafa verið með ýmiskonar námskeið fyrir börn og unglinga og foreldra ásamt ráðgjöf og göngudeildarúrræði fyrir unglinga í vímuefnavanda. Nú vantar samtökin húsnæði undir starfið og hafin er söfnun. Við ræddum við Berglindi Gunnarsdóttur framkvæmdastjóra Foreldrahúss í þættinum.
Tungumálatöfrar á Ísafirði er árlegt námskeið fyrir fjöltyngd börn. Kynntar verða þær kennsluaðferðir sem beitt er á Tungumálatöfrum og skoðuð tengsl við önnur verkefni sem snúa að íslenskukennslu fyrir fjöltyngd börn og unglinga. Þá verður skoðað mikilvægi námskeiða sem þessa þegar kemur að aðlögun innflytjenda með tilliti til aukins lýðræðis- og menningarlæsis. Anna Hildur Hildibrandsdóttir sagði frá tilurð þessa verkefnis í þættinum.
Jósefína Meulengracht Dietrich er læða á Akranesi og það sem meira er hún er skáldlæða og mannfræðingur. Jósefína skrifaði nýlega undir samning um útgáfu Jósefínubókar. Mun bókin innihalda úrval eitt hundrað ljóða sem Jósefína hefur ort í gegnum tíðina. Þið heyrðuð rétt, Jósefína er læða, sem sagt köttur. Við hringdum í útgefandann, Bjarna Harðarson, hjá Bókaútgáfunni Sæmundi og forvitnuðumst aðeins um þessa merkilegu læðu.
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR