Það er stórt og óafturkræft áfall þegar foreldri barns fellur frá og hefur mikil áhrif á líf þess. Í dag fer fram málþingið „Hvað verður um mig“, um rétt barna, stöðu þeirra og þarfir við fráfall foreldris. Á málþinginu fjalla fyrirlesarar um málið frá ýmsum hliðum, en í fyrsta sinn hafa verið teknar saman tölur hjá Hagstofunni um fjölda barna sem lenda í þessari stöðu á ári hverju á Íslandi. Kynntar verða rannsóknir um upplifun barna eftir fráfall foreldris. Við fengum Heiðrúnu Jensdóttur formann Arnarins minningarsjóðs og Svavar Knút Kristinsson tónlistarmann, en hann missti föður sinn í snjóflóðinu á Flateyri árið 1995.
Kærleiksdagar voru haldnir á Breiðdalsvík um helgina, en þeir voru fyrst haldnir fyrir rúmum 20 árum. Þar er lögð áhersla á óhefðbundnar meðferðir og kærleiksríka samveru. Hefð er til dæmis fyrir því að gestir byrji fyrsta kvöldið á að faðmast og knúsast. „Kærleiksdagarnir snúast um kærleiksrík samskipti og að við séum opnari,“ segir Vigdís Steinþórsdóttir, stjórnandi daganna, en hún kom í þáttinn í dag og sagði okkur frekar frá helginni.
Lesandi vikunnar í þetta sinn var söngvarinn Þór Breiðfjörð, en hann hefur sungið stærstu hlutverkin meðal annars í Vesalingunum og Jesus Christ Superstar, hér á landi, á West End í London og víðar. Við spurðum hann út í hvaða bækur eru á náttborðinu hjá honum, hvað hann er að lesa þessa dagana og hvaða bækur og höfundar hafa haft áhrif á hann í gegnum tíðina.
UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON