Guðni Gunnarsson hefur starfað við heilsurækt í 40 ár, hér á landi og vestanhafs. Nú stendur hann fyrir sjálfstyrkingarnámskeiði þar sem fólk getur lært af honum sjö skref til varanlegrar velsældar, í fjarnámi. Námskeiðið kallast Máttur athyglinnar Guðni fer á námskeiðinu í gegnum hugrenningatengsl og hegðunarferli varðandi mat, drykk, hreyfingu og lífsstíl. Guðni kom í þáttinn í dag.
Dagur heyrnar er haldinn hátíðlegur á Íslandi í dag. Markmið þessarar árlegu uppákomu er að vekja athygli á mikilvægi heyrnar og heyrnarverndar, því vandamáli sem heyrnartap og heyrnarleysi veldur í heiminum sem og hlutverki heilbrigðisstétta í skimun, greiningu og meðferð heyrnarvandamála. Þema dagsins í ár er ,,Mældu heyrnina“. Við fengum Kristján Sverrisson, forstjóra Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslandsí þáttinn. Hann sagði meðal annars frá nýju snjallforriti sem er ókeypis, þar sem allir geta mælt heyrnina sína, það heitir hearWHO og er t.d. að finna á www.hti.is.
Lesandi vikunnar í þetta sinn var Helgi Briem, hann er, auk þess að vera lestrarhestur, líffræðingur, sérfræðingur í upplýsingaöryggi og bassaleikari í hljómsveitinni Fræbbblarnir. Við spurðum hann hvaða bækur eru á náttborðinu hjá honum, hvað hann hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft áhrif á hann í gegnum tíðina. En Helgi losaði sig við u.þ.b. fimm þúsund bækur sem hann átti fyrir nokkrum árum og les nú meira og minna allt í kindlinum sínum, eða spjaldtölvu.
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG MARGRÉT BLÖNDAL