Gunnhildur Una Jónsdóttir, þriggja barna einstæð móðir, var sett í raflostmeðferð við djúpu, óbærilegu þunglyndi. Meðferðin þótti takast vel en afleiðingarnar voru skelfilegar. Hún glataði minningum sínum, veruleikinn varð framandi og fortíðin ósamstæð og brotakennd. Gunnhildur Una sagði sögu sína í þættinum í dag, um það hvernig henni tókst að fóta sig á ný eftir áfallið, lýsir baráttunni við sjúkdóminn og leitinni að fortíðinni og sjálfri sér.
Þegar himinbirtan tekur að lýsa upp auðlindir jarðar og náttúru og fuglarnir leika undir með kvaki og krunki er tími „Fuglatónleika“ á næstu grösum. Tónskáldið Valgeir Guðjónsson myndar tón- og textabrú frá Eyrarbakka til Hveragerðis þar sem ljóðskáldið Jóhannes úr Kötlum hafði búsetu á fimmtu árlegu Fuglatónleikunum. Valgeir hefur gefið út þrjár plötur með lögum sínum við ljóð Jóhannesar, við ræddum um vorið, náttúruna og fugla við Valgeir í þættinum í dag.
Lesandi vikunnar í þetta sinn var Steinunn Jóhannesdóttir, rithöfundur og leikkona, en hún er ein sjö leikkvenna sem standa að flutningi Passíusálma Hallgríms Péturssonar í Hallgrímskirkju á föstudaginn langa. Við spurðum hana um hvaða bækur eru á náttborðinu hennar, hvað hún er að lesa þessa dagana og hvaða bækur og höfundar hafa haft áhrif á hana í gegnum tíðina.
UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON