Á næstu 10 árum munu þrjátíu þúsund Íslendingar láta af störfum og fara á eftirlaun. Hvað geta einstaklingar reiknað með að fá í eftirlaun? Hvað geta þeir gert ef þeir vilja stuðla að hærri eftirlaunum og hvað á að gera þegar taka eftirlauna hefst? Hvaða sparnaðarleiðir eru bestar osfrv. Gunnar Baldvinsson er höfundur nýrrar bókar “ Lífið á efstu hæð“, allt sem þú þarft að vita til að stuðla að góðum eftirlaunum. Gunnar var í þættinum í dag.
Við hringdum í Valgerði Bjarnadóttur, en hún stendur fyrir svokallaðri draumaferð til Lanzarote á Kanaríeyjum í janúar. Eins og segir í kynningartexta þá verður flogið suður á bóginn með hóp kvenna, þar sem unnið verður með drauma dags og nætur í sól og sælu. Þar munu þær dvelja saman í draumahúsinu, læra á draumana sína og dekra við sig og næra tengslin.
Lesandi vikunnar í þetta sinn var Sigrún Sif Jóelsdóttir, hún flutti hugvekju í gær á ljósagöngu UN Women, þar sem vakin var athygli á kynbundnu ofbeldi í samfélaginu. Við spurðum hana út í hvaða bækur eru á náttborðinu, hvað hún er að lesa þessa dagana og hvaða bækur og höfundar hafa haft áhrif á hana í gegnum tíðina. Hún talaði um jógabækur, sjálfshjálparbækur og Ástrík og Kleópötru.
Umsjón Guðrún Gunnarsdóttir og Gunnar Hansson