Við fengum í dag að kynnast ungri konu úr Keflavík sem fór ekki í framhaldsskóla heldur beint á sjóinn, vann svo í frystihúsi og lífið tók svo við eins og gengur og gerist. Eftir fæðingarorlof með þriðja barninu ákvað hún að halda áfram námi. Hún fór í gegnum VIRK og nú er hún að klára svokallaðan Háskólagrunn hjá HR, sem er leið að háskólanámi fyrir þá sem ekki eru með stúdentspróf. Hún heitir Hlíf Ásgeirsdóttir og hún kom í þáttinn ásamt Málfríði Þórarinsdóttur forstöðumanni Háskólagrunnsins.
Lögfræðingurinn Sveinn Guðmundsson heldur úti netsíðunni Jural.is með grínsögum af lögfræðingum og við ákváðum að heimsækja Svein á lögfræðingastofuna og spjalla við hann yfir kaffibolla, um starfið,stéttina og grínið. Sveinn segir að það sé af nógu að taka af lögfræðingagríni og lét nokkrar fljóta með í viðtali í þættinum í dag.
Í dag heyrðum við seinni hluti viðtals Kristínar Einarsdóttur, okkar konu á Ströndum, við Jósep Blöndal lækni. Jósep hefur á sínum læknisferli í Stykkishólmi komið þúsundum Íslendinga til hjálpar sem átt hafa við bakvandamál að stríða. Jósep er frábær sögumaður og hann hélt áfram að segja skemmtilegar sögur í þættinum í dag.
UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON