Að kvöldi 17.júní var hin frábæra íslenska kvikmynd Stuðmanna, Með allt á hreinu, sýnd á RÚV. Það var virkilega gaman að rifja hana aftur upp, frábær tónlist og stórskemmtilegur húmor sem hefur staðist tímans tönn. Í eftirminnilegu atriði í myndinni syngja Stuðmenn um stóreflis UFO sem af himnum ofan datt og astraltertugubb. Í því atriði léku tvíburabræðurnir Hörður og Haukur Harðarsynir geimverurnar sem komu með UFO-inu. Þeir voru landsþekktir, léku einnig í Hrafninn flýgur, voru með listasýningar þar sem þeir sýndu meðal annars hreyfilist, þróuðu eigin sjálfsvarnarlist, Kimewasa og margt fleira. En svo hurfu þeir af sjónarsviðinu, eða hvað? Föstudagsgestur Mannlega þáttarins í þetta sinn var Haukur Harðarson, annar þeirra bræðra.
Í matarspjalli dagsins ræddum við við Margréti Rósu Einarsdóttur sem hefur verið í veitingabransanum lengi og veit nákvæmlega hvernig á að reka góðan veitingastað . Í dag er hún hótelstjóri á hótel Glym og einnig rekur hún kaffihúsið Englendingavík í Borgarnesi.
UMSJÓN GUNNAR HANSSON OG SIGURLAUG MARGRÉT JÓNASDÓTTIR