Árið 2005 tók gildi reglugerð um kortlagningu hávaða og aðgerðaáætlanir um mat og stjórn á hávaða í umhverfinu. Markmið reglugerðarinnar er að kortleggja og meta hávaða og leggja grunn að aðgerðum til að draga úr ónæði og truflunum af völdum hávaða. Við fengum Gunnar Alexander Ólafsson, sérfræðing hjá Umhverfisstofnun til að segja okkur frekar frá kortlagningunni.
Blómahengi og vegghengi úr macramé prýða mörg fallegustu heimili landsins og væntanlega mun þeim fjölga eitthvað á næstunni því út er komin bókin Macramé - hnútar og hengi, sem kennir þessa aldagömlu handavinnu og gefur hugmyndir af fallegum hengjum og öðrum hlutum sem hægt er að gera með hnútana að vopni. Ninna Stefánsdóttir kom í þáttinn og fræddi okkur um Macramé.
Lesandi vikunnar í þetta sinn var Erpur Eyvindarson. Hann er best þekktur sem rappari og sjónvarpsmaður, en við ætlum að forvitnast um bókaorminn Erp. Við komum aldeilis ekki að tómum kofanum þar, hann kom með fjölda bóka sem hann hefur veirð að lesa eftir Búlgakoff, Atwood, Chomsky og fleiri og svo endaði hann með að lesa jólaljóð eftir Sigga Gúst félaga sinn.
Umsjón Lísa Pálsdóttir og Gunnar Hansson