Heiða Ólafs söngkona, leikkona og flugfreyja var föstudagsgestur Mannlega þáttarins í dag. Hún lenti í 2. sæti í Idolinu árið 2005 og sama ár gaf hún út sína fyrstu sólóplötu hjá Senu. Þar með hófst farsæll ferill í söng og reyndar leiklist líka því Heiða lærði leiklist í New York og útskrifaðist árið 2009. Hún hefur leikið í söngleikjum eins og Buddy Holly í Austurbæ, Bjart með Köflum og Vesalingunum í Þjóðleikhúsinu og einnig hefur hún unnið undanfarin ár við dagskrárgerð á Rás 2. Nú er að koma út glæný plata með Heiðu með hennar eigin efni í bland við uppáhaldslög og við forvitnuðumst um hana og uppvöxtinn á Hólmavík.
Sigurlaug Margrét Jónasdóttir var að sjálfsögðu hjá okkur í dag með sitt vikulega matarspjall. Í dag hringdum við í Friðgeir Inga Eiríksson matreiðslumeistara. Hann rak í mörg ár veitingastaðinn á Hótel Holti og er nú að opna nýjan veitingastað á Laugaveginum, Eiríksson brasserie. Hann sagði okkur meðal annars um trufflusveppi og margvíslega rétti þar sem þeir koma við sögu.
Landsmót barna- og unglingakóra verður haldið á Akranesi um helgina. Von er á um 250 söngglöðum krökkum frá 5. bekk og uppúr en þau munu vinna saman í söngsmiðjum og halda svo lokatónleika í Grundaskóla á sunnudaginn kl. 13.30. Flestir eru kórarnir af suð-vesturlandi en nokkrir þeirra koma lengra að. Áhersla er lögð á að tengja mótið við bæjarlífið á Skaganum þannig að bæjarbúar geta átt von á að rekast á kórana á flakki um bæinn á laugardeginum. Við slógum á þráðinn uppá Skaga og ræddum við Valgerði Jónsdóttur sem heldur utan um skipulag og framkvæmd mótsins.
UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON