Föstudagsgesturinn okkar er önnum kafinn framkvæmdastjóri sem sér fram á afskaplega viðburðaríka helgi. Þetta er Hrönn Svansdóttir framkvæmdastjóri og annar eiganda Crossfit Reykjavík en í dag hefst alþjóðlegt mót í Laugardalshöllinni; Reykjavík Crossfit Championship sem er ein þeirra keppna sem geta tryggt þáttökurétt á heimsleikunum.
Við flytjum ykkur líka nýjustu fréttir af Böggvisbrauði. Á forsíðu héraðsfréttablaðsins Norðurslóðar sem gefið er út í Dalvíkurbyggð má lesa frétt um nýja brauðgerð - Böggvisbrauð sem ætlar að selja nýbakað súrdeigsbrauð til áskrifenda. Fyrstu brauðin verða afhent í dag og við heyrum í brauðgerðarmeistarnum Mathiasi Spoerrey.
Matreiðslumeistarinn Gunnar Karl Gíslason, er einn stofnenda og eigenda veitingastaðarins Dill sem var fyrstur íslenskra veitingastaða sem fékk Michelin stjörnu, hann hefur verið yfirkokkur á veitingastaðnum Agern í New York undanfarin ár, en sá staður hlaut einmitt Michelin stjörnu á meðan hann var þar. Nú er hann fluttur aftur til Íslands og tekinn aftur við Dill, en hann verður gestur hjá okkur í matarspjalli dagsins. Þar munum við spjalla um þessar eftirsóknarverðu en torfengnu stjörnur og svo segir hann okkur frá íslenskum villtum jurtum sem góðar eru í matargerð til dæmis arfa og kerfil.
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG MARGRÉT BLÖNDAL