Konúsíusarstofnun Norðurljósa við Háskóla Íslands stendur fyrir sumarnámskeiði í Kungfu ( kínverskum bardagalistum) og kínversku. Markhópurinn er börn og unglingar á grunnskólaaldri en foreldrar mega gjarnan taka þátt ef þeir hafa tíma og áhuga. Kennararnir koma frá Kína og hafa báðir reynslu í að kenna börnum. Magnús Björnsson,forstöðumaður Konfúsíusarstofnunarinnar Norðurljósa og Guan Dong Qing, eigandi Heilsudrekans, komu í þáttinn og sögðu frá.
Olivia Debois frá Kamerún rekur bás í Kolaportinu sem hún kallar Manita house. Þar má finna litríkar vörur frá Afríku sem hún selur og ágóðan gefur hún til góðgerðasamtaka sem starfa í Frakklandi og Kamerún. Samtökin sem nefnast Heilsa og hjarta hafa það markmið að bjóða fötluðu fólki, þá sérstaklega börnum og einnig fólki með geðræna sjúkdóma, upp á listkennslu. En Olivia hefur ýmislegt á prjónunum sem við heyrðum um í þætti dagsins.
Lesandi vikunnar í þetta sinn var Árni Matthíasson, blaðamaður hjá Morgunblaðinu. Hann sagði frá hvaða bækur eru á náttborðinu hjá honum, hvað hann hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft áhrif á hann í gegnum tíðina.
UMSJÓN GUNNAR HANSSON OG ARNDÍS BJÖRK ÁSGEIRSDÓTTIR