Félag um átjándu aldar fræði heldur málþing í Þjóðarbókhlöðunni á laugardaginn. Þar flytja meðal annars Erla Hulda Halldórsdóttir, dósent í sagnfræði við Háskóla Íslands, erindið „Maðurinn svo ókunnugur“. Um bónorðsbréf karla og vandræði kvenna og Dalrún J. Eygerðardóttir, doktorsnemi í sagnfræði við HÍ, flytur erindið „Hver hefir gert henni svo illt, að hún vilji firra sig lífinu?“ Umfjöllun um ofbeldi karla gegn konum í vinnuhjúastétt. Við fengum þær Erlu og Dalrúnu í þáttinn til að segja okkur frá málþinginu og þeirra erindum.
Ferðafélag Íslands býður félögum á eftirlaunaaldri að taka þátt í hressandi göngum frá 10. febrúar til 6. maí. Gengið verður tvisvar í viku á höfuðborgarsvæðinu á mánudögum og miðvikudögum kl. 10. Gengið verður á sléttlendi að mestu leyti og á mánudögum verður gengið um Elliðaárdal en á miðvikudögum vítt og breitt um höfuðborgarsvæðið. Við ræddum við Heiðrúnu Ólafsdóttur um þessar ferðir.
Póstkortið sem við fengum frá Magnúsi R. Einarssyni frá Spáni í dag sagði af einkennilegu veðurfari og eftirmálum vegna Gloríustormisns sem olli gríðarlegri eyðileggingu, að minnsta kosti fimmtán manns fórust. Það sagði líka af ört vaxand fjöld ungra spánverja sem ánetjast spilafíkn og er jafnvel talað um faraldur í því sambandi. Og svo var eilítið fjallað um pólitík, en spennan eykst stöðugt vegna ástandsins í Katalóníu.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON