Rótin, félag um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda, hefur undanfarin ár bent á skort á mikilvægi kynjamunar í tengslum við fíknivanda og áföll í rannsóknum og skýringalíkönum á neysluvanda. Drögum kynjatjöldin frá: Til móts við kynjaða heildarsýn á áföll og fíkn, er yfirskrift ráðstefnu sem haldin er á Hótel Natura í vikunni í samvinnu Rannsóknastofu í jafnréttisfræðum (RIKK), Rótarinnar, Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna og Jafnréttisstofu.Þær Kristín I. Pálsdóttir, verkefnisstjóri hjá RIKK og Sólveig Anna Bóasdóttir, prófessor í guðfræðilegri siðfræði komu í þáttinn og sögðu frá ráðstefnunni.
Lesandi vikunnar í þetta sinn var Bjarni Harðarson, rithöfundur og bóksali, en hann undirbýr nú viðburð um Njálu sem verður í Landnámssetrinu í Borgarnesi sem við fengum hann til að segjafrá. Svo auðvitað fengum við að vita hvaða bækur eru á náttborðinu hjá honum, hvað hann er að lesa þessa dagana og hvaða bækur og höfundar hafa haft áhrif á hann í gegnum tíðina.
Og hann var ekki eini Árnesingurinn sem kemur við sögu í þessum þætti - því við heimsóttum afar forvitnilega verslun á Selfossi sem heitir Alvöru búðin - og reyndar heitir hún ekki bara Alvörubúðin heldur líka hannyrðabúðin og er elskuð af viðskipavinum um allt land. Þar ráða ríkjum þær Alda Sigurðardóttir og Þóra Þórarinsdóttir.
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG MARGRÉT BLÖNDAL